Orka ehfFyrirtækið Orka ehf. var upphaflega stofnað árið 1944 og því byggir Orka ehf. á gömlum og grónum grunni. Fyrirtækið var upphaflega stofnað til þess að annast boranir eftir heitu vatni, byggingarstarfsemi og verslunarrektstur. Orka ehf. hefur meðal annars séð um innflutning og sölu á búnaði og efnum til orkuframleiðslu fyrir virkjanir, verið með umboð fyrir Jagúar á Íslandi, annast innflutning sænsku rekstrarvaranna frá Skandex, séð um innflutning og viðhald ísskápa, veghefla, hjólastólalyftna, jarðvegsdúka og svo lengi mætti áfram telja. Nafnið á fyrirtækinu á því rætur að rekja til orkuframleiðslu en eins og sjá má hefur starfsemi fyrirtækisins verið síbreytileg í gegnum árin. Á tímabili var Orka ehf. meðal stærstu fyrirtækja landsins. Stjórnendur fyrirtækisins hafa því eins og gefur að skilja verið margir og fjölbreyttir síðastliðin 76 ár. Meðal þeirra má nefna Sigurð Helgason sem var framkvæmdarstjóri Orku en er þekktastur fyrir stjórnarsetu í Loftleiðum hf. og fyrir forstjórastörf hjá Flugleiðum hf. Þar má einnig nefna Davíð Sigurðsson, sem var með einkaumboð á FIAT hérlendis þegar FIAT bílarnir voru mest seldu bílarnir í Evrópu, og Valfellsbræður sem voru á sínum tíma við stjórnvölinn hjá Steypustöðinni.
Rétt fyrir aldamót 21. aldar sameinaðist starfsemi Orku ehf. fyrirtækinu Snorri G. Guðmundsson ehf. Eftir sameiningu var innflutningur og dreifing á framrúðum á bíla helsti tekjustraumur fyrirtækisins. Tiltölulega stuttu eftir sameiningu var fyrirtækið selt í heild sinn. Páll Helgi Guðmundsson, Jóhann G. Hermannsson og Jón Arnar Hauksson endurstofnuðu Orku árið 2005 í þeirri mynd sem við þekkjum fyrirtækið í dag. Bílrúðulager var byggður upp fyrir verkstæði Orku og með tímanum settur á laggirnar einn stærsti og sérhæfðasti bílrúðulager landsins. Fyrirtækið leggur áherslu á að eiga allar helstu framrúður til á lager sem skilar sér í góðri og snöggri þjónustu til viðskiptavina. Í gegnum árin hefur Orka fengið til sín birgja í þeim tilgangi að vera með alhliða þjónustu fyrir réttingar- og sprautuverkstæði landsins. Vöruúrval hefur aukist til muna í gegnum árin og má þá meðal annars nefna bílrúður frá nokkrum stærstu og þekktustu framleiðendum heims á borð við AGC, Guardian og ABC. Bílalökk frá PPG og MIPA, sprautukönnur frá SATA, rekstrarvörur fyrir verkstæði frá Indasa og MP, bón og hreinsivörur frá Roar og Kent, juðara og verkfæri frá Dynabrade og Serenco, suðuvélar og könnuþvottavélar frá ProSpot og RosAuto, sprautuklefa frá ítalska framleiðandanum Termomeccanica og kítti og efni frá SIKA.
Eigendur Orku ehf. í dag eru þeir Páll H. Guðmundsson, Jóhann G. Hermannson, Jón A. Hauksson, Guðlaugur Pálsson og Páll H. Guðlaugsson. Hjá Orku ehf. er lögð áhersla á traust sambönd starfsfólks innan veggja fyrirtækisins sem stjórnendur telja lykilatriði til þess að viðhalda traustum kúnnahóp, línulegum vexti fyrirtækisins og ánægju viðskiptavina með þjónustuna sem fyrirtækið veitir. Starfsmenn Orku eru fjölbreyttir og leggja allir sitt af mörkum, þar má m.a. finna fagmenn með áratuga reynslu af þjónustu í bílageiranum, menntaða meistara í bifreiðasmíði og bílamálun og bílrúðu- og lakksérfræðinga sem hafa sótt námskeið víðsvegar um Evrópu.
Höfuðstöðvar Orku eru á Stórhöfða 37 í Reykjavík þar sem verslun, skrifstofur, lager og eitt stærsta og sérhæfðasta rúðuverkstæði landsins er að finna. Þar sem starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt var þörf á viðbótum og nýlega var sett upp annað rúðuverkstæði í götunni og lagerinn stækkaður.
Orka ehf leggur mikið upp úr því að leita sífellt leiða til þess að bæta starfsemi sína í takt við tímann með þarfir viðskiptavinna að leiðarljósi. Markmið Orku ehf. er að veita sífellt framúrskarandi þjónustu eftir því sem þekking þess frábæra starfsfólks sem starfa hjá fyrirtækinu leyfir.
Verkstæði
Eitt stærsta sérhæfða bílrúðuverkstæði landsins þar sem fagmenn með áratuga reynslu af þjónustu í bifreiðageiranum starfa.
Verslun
Í vefverslun okkar má finna helstu smávörur sem við bjóðum upp á frá okkar birgjum en einnig erum við með verslun sem staðsett er á Stórhöfða 37, 110 Reykjavík
Fyrirtækjasvið
Við þjónustum verkstæði, fyrirtæki og einkaaðila um allt land.
Hafðu samband og sjáðu hvað við getum mögulega gert fyrir þitt fyrirtæki.